Verkefnaáætlun Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn 2014

Vöktun lífríkis Mývatns og Laxár

1. Vöktun fuglalífs
1a. Varpstofnar vatnafugla
1b. Mývatn og Laxá sem fellistöð vatnafugla
1c. Framleiðsla vatnafugla

2. Vöktun fiskstofna í Mývatni
2a. Ástand silungsstofna í Mývatni
2b. Ástand hornsílastofnsins í Mývatni

3. Vöktun átustofna í Mývatni og Laxá
3a. Ástand mýflugustofna Mývatns og Laxár
3b. Ástand krabbadýrastofna

4. Önnur vöktun
4a. Plöntusvif
4b. Efnasamsetning lindarvatns
4c. Svartárvatn
4d. Vatnshiti

Rannsóknaverkefni
1. Lífsaga Mývatns. Innra samspil og ytri kraftar.
2. Forngarðar í Þingeyjarsýslum.
3. Eyðing birkiskóga í Þingeyjarsýslum.
4. Breytingar á andastofnum.
5. Sveiflur í fæðukeðjum Mývatns.
6. Nýtingarsaga Mývatns.
7. Breytingar á útbreiðslu kúluskíts
8. Kuml á Geirastöðum.
9. Stofnfræði og erfðabreytileiki gjáarlontu.
10. Stofnfræði, búsvæðaval og erfðabreytileiki hornsílis.

 

Miðlun
1. Útgáfa plöntubókar fyrir Mývatnssveit.
2. Útgáfa bókar á íslensku um lífríki Mývatns og Laxár.
3. Útgáfa bókar um forn garðlög í Þingeyjarsýslum.
4. Vefsíður.

 

Vöktun lífríkis Mývatns og Laxár

1. Vöktun fuglalífs

1a. Varpstofnar vatnafugla.

Talning vatnafugla á Mývatni og Laxá vorin, 15. maí-10. júní.  Talning í Svarfaðardal og á Svartárvatni til samanburðar.  Taldir eru allir vatnafuglar utan óðinshani (sem ekki er alveg kominn á þeim talningartíma sem hentar best fyrir endur). Verkefnið hófst árið 1975. Talning er stöðluð, farið er um öll votlendissvæði og allir vatnafuglar sem sjást skráðir. Gögn eru birt á vefsíðu RAMÝ og færð í gagnagrunn.

1b. Mývatn og Laxá sem fellistöð vatnafugla

Talning á kaföndum í felli (sárum), á hverju ári í fyrstu viku ágúst. Markmiðið er (1) að meta notkun Mývatns og efsta hluta Laxár sem fellistöð fyrir duggönd, skúfönd, toppönd, hávellu og húsönd auk álfta og gæsa; (2) að fá heildartölu á húsandarstofninn, sem safnast allur saman á svæðinu á þessum tíma. Krefst fjögurra manna teymis, þ.e. tveggja sérþjálfaðra talningarmanna og tveggja ritara með bíl og bát. Verkefnið hófst árið 1975.

1c. Framleiðsla vatnafugla

Talning á andarungum.  Hún fer fram um leið og talning fellifugla (sjá 1b). Taldir eru allir ungar húsandar, hrafnsandar, straumandar og toppandar og tekin hlutföll duggandar- og skúfandarunga miðað við kvenfugla. Markmiðið er að meta fjölda unga sem kemst á legg og er talningin tímasett þannig að mestu afföllin séu um garð gengin.  Sérstök talning rauðhöfðaunga fer fram um 10. júlí.  Aðrar gráendur (t.d. stokkönd, urtönd og gargönd) verða ekki taldar með góðu móti vegna þess hve felugjarnar þær eru. Verkefnið hófst árið 1975. Gögn eru færð í gagnagrunn RAMÝ.

 

2. Vöktun fiskstofna í Mývatni

2a. Ástand silungsstofna í Mývatni

Gerð er ein úttekt með netaseríum í lok ágúst-byrjun september. Markmiðið er að kanna veiði, árgangaskiptingu, sýkingartíðni og holdafar bleikju og urriða í Mývatni. Verkefnið hófst árið 1976 og er samvinnuverkefni Veiðimálastofnunar og RAMÝ.  Gögn eru færð í gagnagrunn Veiðimálastofnunar.

2b. Ástand hornsílastofnsins í Mývatni

Gerðar eru tvær úttektir með gildrum á átta stöðum í Mývatni, önnur um 20. júní, hin um 20. ágúst ár hvert. Verkefnið hófst árið 1989. Gögn eru færð í gagnagrunn RAMÝ. Hólaskóli hefur lagt til aðstoðarmann undanfarin þrjú ár og í gangi er samvinnuverkefni um erfðafræði og búsvæðaval hornsíla í Mývatni.

 

3. Vöktun átustofna í Mývatni og Laxá

3a. Ástand mýflugustofna Mývatns og Laxár

Ástand mýflugustofna er kannað með gildrum sem hafðar eru uppi á 9 stöðum við Mývatn og Laxá sumarlangt og tæmdar hálfsmánaðarlega. Gögn eru færð í gagnagrunn RAMÝ. Markmiði telst náð ef niðurstöður liggja fyrir árið eftir veiðarnar. Verkefnið hófst árið 1977. 3b. Ástand krabbadýrastofna

Ástand krabbadýrastofna er kannað með gildrum sem lagðar eru á fimm stöðum í vatnið tvisvar á sumri, í júlí og ágúst. Gögn eru færð í gagnagrunn RAMÝ. Markmiði telst náð ef niðurstöður liggja fyrir árið eftir veiðarnar. Verkefnið hófst árið 1990.

 

4. Önnur vöktun

4a. Plöntusvif.

Fylgst er með plöntusvifi með reglubundnum mælingum á rýni (sjóndýpi) í Syðriflóa og (frá 2012) með síritandi blaðgrænumæli í útfallinu.

4b. Efnasamsetning lindarvatns.

Að jafnaði eru tekin vatnssýni á haustin úr Grjótavogi og Helgavogi til mælinga á næringarefnum. Sumarið 2012 voru tekin sýni úr 10 uppsprettum. Samvinnuverkefni með Hafró.

4c. Svartárvatn.

Fuglar eru taldir á Svartárvatni og efri hluta Svartár á vorin.

4d. Vatnshiti.

Tveir síritandi hitamælar eru á svæðinu, annar í Syðriflóa, hinn í útfalli Laxár við Geirastaði.  Veiðimálastofnun rekur einnig mæla neðar í Laxá.

 

 

Rannsóknaverkefni

1. Lífsaga Mývatns. Innra samspil og ytri kraftar.

Hér er um langtíma rannsóknaverkefni að ræða sem byggist á því að lesa lífsögu Mývatns aftur á bak í tíma úr setlögum sem fundust haustið 2006.  Hluti þess er doktorsverkefni Ulf Hauptfleisch, sem lauk 2012. Verkefninu fer að ljúka.

Kostað af RANNÍS og RAMÝ.  Samvinna er við Háskólann í Árósum, University College, London og University of Regina, Kanada.  Verkefnið hófst 2006.

 

2. Forngarðar í Þingeyjarsýslum.

Verkefni þetta hófst 2004 og felst í rannsóknum á þjóðveldisgarðlögum í Þingeyjarsýslum. Garðlögin eru rakin á loftmyndum, sem margar eru teknar sérstaklega í þessum tilgangi. Einnig eru tekin snið í garðana til að kanna aldur og byggingarlag.  Verkið er unnið í samvinnu við Fornleifastofnun Íslands og kostað af RANNÍS, Þjóðhátíðarsjóði og RAMÝ.  Útivinnu við verkefnið er lokið (2011). Kortagerð er að mestu lokið. Verkefninu lýkur með bók um garðana og er áætlað að hún komi út árið 2015.

 

3. Eyðingarsaga birkiskóga í S.Þingeyjarsýslu.

Árið 2008 hófst verkefni sem felst í aldursgreiningum á kolagröfum í S. Þingeyjarsýslu og hefur það markmið að kortleggja eyðingarsögu birkiskóga í sýslunni.  Samvinnuverkefni með Durham University (Mike Church) og University of Leeds (Ian Lawson og Katherine Roucoux).  Útivinnu er lokið en úrvinnsla hefur dregist vegna fjárskorts.

 

4. Breytingar á andastofnum.

Gögn úr vöktun andastofna og átu nýtast til rannsókna á viðbrögðum andastofna við fæðubreytingum. Flestum rannsóknanna er lokið í bili (samvinna við Arnþór Garðarsson, HÍ), en eftir er rannsókn á samspili húsandarinnar og fæðu hennar.

 

5. Sveiflur í fæðukeðjum Mývatns.

Fæðukeðjur Mývatns ganga í gegnum miklar sveiflur, sem talið er að stjórnist af samspili innan fæðuvefsins, einkum vegna áhrifa mýflugunnar Tanytarsus á botnlagið.  Þessar sveiflur hafa magnast á síðustu áratugum og hafa valdið því að bleikjustofninn ber ekki lengur neina veiði.  Í samvinnu við Anthony R. Ives, University of Wisconsin (Madison), Arnþór Garðarsson (HÍ) og Vincent Jansen (Royal Holloway, London) er unnið að rannsóknum á drifkröftum og eiginleikum sveiflnanna.  Grein birtist í tímaritinu Nature 2008. Í nóvember 2010 fékkst tíu ára styrkur frá NSF í Bandaríkjunum til að safna ítarlegum gögnum um næstu sveiflu en mýstofnar eru nú að rísa upp úr lágmarki. Kostað af NSF og RAMÝ (gagnaöflun tengd vöktun lífríkis).

 

6. Nýtingarsaga Mývatns.

Að frumkvæði NABO og með styrk frá NSF í tilefni af “alþjóða heimskautaárinu” (International Polar Year) er nú unnið að uppgreftri á sorphaugi á Skútustöðum. Efni haugsins spannar tímabilið frá landnámi til vorra daga og gefur hugmynd um breytingar á mataræði fólks við Mývatn í ellefu hundruð ár.  Verkið er unnið af fornleifafræðingum frá Háskóla New York borgar (CUNY) og Fornleifastofnun Íslands en RAMÝ leggur til aðstöðu og sérþekkingu. RAMÝ, ásamt HÍ (Kesara Anamthawat-Jonsson og Ægir Þórsson) tekur virkan þátt í undirverkefni sem lýtur að því að greina eggjaskurn til tegunda, en hingað til hefur slíkt ekki verið reynt.

 

7. Breytingar á útbreiðslu kúluskíts.

Verkefninu lýkur á árinu  með útgáfu skýrslu um brotthvarf kúluskíts og afdrif þörungamottu vatnsbotnsins.

 

8. Geirastaðakuml.

Haustið 2008 fannst kumlateigur, þ.á m. líklegt bátkuml, uppi á gervigíg á bökkum Mývatns. Prufuskurður var tekinn árið 2011 og unnið var að segul- og jarðsjármælingum árið 2012 í samvinnu við Fornleifastofnun og bandarískan rannsóknahóp. Ætlunin er að ljúka jarðsjármælingum 2014 og láta síðan fara fram ítarlega fornleifarannsókn á staðnum.

 

9. Stofnfræði og erfðabreytileiki gjáarlontu.

Gjáarlonta nefnist dvergvaxið bleikjuafbrigði sem finnst í hraunhellum við Mývatn.  Árið 2012 hófst rannsókn að útliti og erfðabreytileika fiskanna og er það samvinnuverkefni margra aðila, m.a. RAMÝ, undir forystu Hólaskóla.

 

10. Stofnfræði og erfðabreytileiki hornsílis í Mývatni.

Kannað er með erfðafræðilegum aðferðum hvort tengsl sú milli búsvæðavals, sveiflna í fæðuframboði og erfðabreytleika hornsílis í Mývatni. Samvinnuverkefni margra aðila, m.a. RAMÝ, undir forystu Hólaskóla. Verkefnið hófst 2010. Mikilvægum áfanga lauk með doktorsvörn Antoine Millet árið 2013