Kúluskítur er eitt af vaxtarformum grænþörungs sem ber fræðiheitið Aegagropila linnaei (áður Cladophora aegagropila) en hann lifir í fersku vatni og hefur hlotið heitið vatnaskúfur á íslensku. Þörungurinn vex sums staðar upp í þéttar kúlur sem geta orðið allt að 15 cm í þvermál. Kúlurnar liggja saman í flekkjum á botninum og mynda afar sérstæð samfélög sem aðeins þekkjast á fáum stöðum í heiminum. Einn þekktasti staðurinn er Akanvatn á Hokkaido í Japan, en þar er þörungurinn víðkunnur, er skilgreindur sem “sérstök náttúrugersemi” (“natural treasure”) og hefur verið stranglega friðaður síðan á sjötta áratug síðustu aldar. Akanvatn er miðpunktur þjóðgarðs og koma þangað þúsundir gesta á ári til að kynnast plöntunni og lifnaðarháttum hennar.

Kúluskíturinn óx á þremur svæðum á botni Mývatns og er hvert um sig 0,5-2 hektarar að stærð. Hefur flatarmál flekkjanna minnkað mikið hin síðari ár, og má nú (2013) heita að kúluskítur sé horfinn úr Mývatni.  Kúluskíturinn lá víða í tveimur til þremur lögum á botninum, og er ljóst að mjög sérstök skilyrði þurfa að ríkja svo að plönturnar fái þrifist. Er líklegt að líf samfélagsins hafi byggst á óvenjulegu samspili strauma, setmyndunar, ölduhreyfingar, botngerðar og birtu. Uppeldisstöðvar kúluskítsins eru enn lítt þekktar.

Kúluskítur var friðlýstur á Íslandi árið 2006.

Skýrsla um kúluskít maí 2014. The lake balls of Mývatn. In memoriam.