Eggjatínsla og andavarp.

Eggjatínsla hefur strax á landnámsöld verið mikil búbót hjá Mývetningum. Í fornleifarannsóknum á ruslahaugum þjóðveldisbýlanna finnst mikið af eggjaskurn en þeim mun minna af andabeinum sem segir til um að egg hafa verið tínd og nýtt til átu. Til eru skráningar bænda um fjölda tíndra eggja sem hjálpa til við rannsóknir á stofnstærðum andategundanna.

Hér á eftir fylgir frásögn um eggjatínslu unnin úr viðtölum við Helga Vatnar Helgason frá Grímsstöðum og Auði Ísfeldsdóttur á Kálfaströnd sem nemendur í Grunnskóla Skútustaðahrepps tóku árið 2000:

Upphaf eggjatíðar var oft breytileg og fór mjög eftir veðri, en þó var miðað við 20. maí og síðan var tínt fram í miðjan júní. 
Á milli þess sem varp var gengið á hverju svæði liðu þrír til fjórir dagar. Ekki var farið 
í votviðri, en þó man Vatnar eftir einu skipti sem fólkið þurfti að fara í varpið á skíðum. Aðallega 
var það heimafólk sem fór, en stundum komu gestir sem vildu prófa að ganga varp og slógust með í för. Unglingar fengu að fara með um fermingaraldurinn.

Áður en varpið byrjaði á vorin var farið og hreiðrin löguð áður en endunar kæmu til að verpa. Einnig var farið í eyjarnar og hólmana. Þegar varpið var gengið var höfð sú regla, að alltaf voru skilin eftir minnst fjögur egg, 
þannig að ef að fimm egg voru í hreiðri var eitt tekið. Þó var ekki tekið eins 
mikið frá húsöndum vegna þess að þær voru ekki ýkja algengar. Ef mikill dúnn var í hreiðrinu 
var tekið aðeins af honum, en síðan þegar varpi var lokið á sumrin og fuglarnir höfðu yfirgefið hreiðrin var afgangurinn hirtur. Dúnninn var þó misgóður 
vegna rusls sem fuglarnir söfnuðu að sér. Yfirleitt verpti gráöndin fyrst, 
síðan húsöndin og duggöndin síðast. Eggin voru aðallega tínd með höndum 
nema ef þau voru ofan í djúpum holum var notaður háfur. Eggin voru tínd upp í tágakörfur 
sem Mývetningar bjuggu sjálfir til. Körfurnar voru búnar 
til úr viðartágum, aðallega úr grávíði. Þau voru síðan geymd í heyi, nema þau sem voru 
farin að stropa, eins og það kallast þegar ungi er byrjaður að myndast í þeim. Eggin voru sett í þurra ösku, geymd fram á vetur og látin úldna. Úldin 
egg, eða kæst – sem Auður sagði að menn 
teldu að væri fínna orð –  eru einstakur mývetnskur matur. Til að eggin geymdust sem lengst voru þau sett í blöndu af kalki og salti og geymd á köldum stað 
og þannig geymdust þau langt fram á vetur.

Dorgarveiði á ís

Dorgarveiði á ís var talin með vorverkum og var mikið stunduð á Mývatni á útmánuðum, eða í apríl og maí, eftir því sem ís hélst á vatninu. Oft var lítið um nýmeti þegar þetta langt var liðið á veturinn og þá var dorgarsilungur holl og kærkomin tilbreyting í mat. Ef ísinn var farinn af Sundunum var róið út á Flóann og upp að ísskörinni og þá annaðhvort dorgað beint úr bátnum eða farið upp á ísinn. Til beitu var notaður maðkur sem var ræktaður í svokallaðir maðkaveitu. Grafin var grunn gryfja á völdum stað, sem kæmi upp úr snjó í fyrstu hlákum og þar sem ekki væri hætta á pollum eða svellum. Þetta var gert í ágústlok, ekki fyrr því þá var hætta á að maðkurinn flygi upp um haustið og ekki seinna því þá gat skort flugur til að maðkaði. Í veituna var lagður alls konar matarúrgangur, dauðir fuglar sem farist höfðu í netum, innvols úr kindum ef búið var að slátra ásamt öllum úrgangi sem til féll og maðkað gat. Síðan var maðkinum gefið fram eftir september eða þar til hann var orðinn vel vænn. En strax og matinn þraut gróf maðkurinn sig í jörðina í kring og fór í vetrardvala. Maðkurinn lá í vetrardvala grunnt undir yfirborðinu umhverfis veituna, hann var þéttastur á næstu tveimur til þremur metrunum en sumir fóru þó verulega lengra. Þegar fyrst var farið að ganga á dorg á vorin var jörðin yfirleitt frosin. Þá var maðknum náð þannig að höggnir voru upp hnausar í grennd við maðkaveituna og svo geymdir í fjósi þar til þeir voru orðnir þiðnir. Þá voru þeir tættir í sundur og maðkurinn tíndur úr þeim. Hann var síðan geymdur í maðkahornum og alinn á rúgméli.

Heimildir:

Unnið úr Nokkrar gamlar minningar, Helgi Jónasson á Grænavatni http://vortex.is/rhs/jonasogfrida/greinar/minningarHelgiA3.htm