Strípar eru mýventskt nafn á hraundröngum  sem standa eftir þegar bráðnar hrauntjarnir tæmast. Drangarnir myndast þannig að gufa sem streymir í mjóum strók upp í gegnum hraunbráðina kælir bráðina og pípa úr storknu hrauni myndast. Þegar hrauntjörnin tæmist (við það stíflan sem heldur henni upp brestur) standa pípurnar eftir sem drangar, smurðir að utan með sléttri hraunbráð. Storkið yfirborð tjarnarinnar sígur og sjást oft klóruför eftir hraunhellurnar þar sem þær hafa strokist við hranubráðina. Strípar virðast algengir á hafsbotni, á rekhryggjum úthafanna, en sjaldgæfir á landi. Dimmuborgir og Klasar og Kálfastrandarstrípar eru þekktustu stríparnir, en í Hvannstóði á Kröflusvæðinu eru einnig fagrir strípar. Strípar þekkjast einnig í Skælingum á Suðurlandi og á Reykjanesi.