Gervigígar eru sjaldgæfar hraunmyndanir, sem myndast við gufusprengingar þar sem þunnfljótandi hraun rennur út yfir vötn og mýrar (eða út í sjó á Hawaii). Gervigígarnir á Íslandi tengjast flestir stórum flæðigosum (Laxárhraun yngra, Þjórsárhraun, Eldgjárhraun, Leitahraun). Gígarnir eru meðal merkustu náttúruminja Íslands, og við Mývatn eru þeir sérlega formfagrir og mynda umgjörð vatnsins. Gígarnir eru í þyrpingum og mynda stærstu eyjarnar í vatninu. Þeir eru viðkvæmir fyrir traðki og þarf hvarvetna að gera sérstakar ráðstafanir til að varðveita þá þar sem einhver umferð er. Margir gígar hafa verið skemmdir með malarnámi, byggingum og vegagerð, en allmargar gígaþyrpingar eru enn ágætlega varðveittar. Skútustaðagígar eru friðaðir sem náttúruvætti. Gera þarf úttekt á ástandi gíga og hraunstrompa í Aðaldal og huga að verndun þeirra í samhengi við Mývatns-Laxársvæðið í heild.

Hver einstakur gígur myndast við síendurteknar sprengingar sem þeyta upp gjalli og hraunslettum í bland við vatnaset. Þar sem gufa er mikil hlaðast upp gjallhólar en þar sem minni gufa er myndast klepragígar. Margir gjallgígar hafa innri gíg úr hraunkleprum. Gígarnir mynda þyrpingar, oft 5-10 saman, en stundum miklu fleiri og geta gígskálarnar skarast mikið. Þvermál gígskálarinnar fer eftir sprengikraftinum. Þar sem sprengikraftur er lítill, eins og í flestum gervigígum á Suðurlandi, er gígskálin lítil sem engin og hólarnir strýtulaga. Í flestum hólaþyrpingum við Mývatn eru gígarnir af ýmsum gerðum, gjallgígar í bland við klepragíga.

Gervigígar og gervigígaþyrpingar við Mývatn eru tvímælalaust meðal merkustu náttúruminja landsins. Hvergi á landinu eru gígar af þessu tagi jafn stórir, fjölbreyttir og formfagrir. Engar náttúrumyndanir setja heldur eins mikinn og sérstæðan svip á umhverfi Mývatns og þessir gíghólar, sem heita má að sé raðað umhverfis Syðriflóa og mynda auk þess flestar eyjar í vatninu. Gervigígar eða menjar um þá finnast allt frá Sandvatni í vestri og austur að Dimmuborgum. Gervigígarnir við Mývatn eru frábrugðnir öðrum gervigígum því að gígaþyrpingarnar sitja á stöllum úr gjalli. Þessir gervigígar eru mikilsverð heimild um forsögu Mývatns því að í þeim finnst barnamold sem er set úr stöðuvatninu sem hraunið flæddi yfir. Í barnamoldinni eru kísilþörungaskeljar sem veita upplýsingar um þetta vatn. Gíghólarnir sem standa næst vatninu eru fagurgrænir og þaktir gróskumiklum gróðri nema þar sem vatnið nær að brjóta á þeim. Gróðursældin stafar af rykmýinu sem leitar upp á hólana til mökunar og deyr oft þar í hrönnum.
pscr1
Gervigígarnir hafa valdið jarðfræðingum meiri heilabrotum en flest annað í sveitinni og hafa sprottið upp margar og mismunandi skýringar á tilurð þeirra. Þorvaldur Thoroddsen virðist hafa verið mjög nálægt því að skilja hið rétta eðli þeirra, en Sigurður Þórarinsson varð fyrstur manna til að gera rækilega grein fyrir eðli þeirra, þótt skýring á myndun þeirra hafi verið komin fram fyrr.

Picture 29
Gervigígar finnast ekki víða á Íslandi. Í Laxárhrauninu yngra eru þeir við Mývatn, í Laxárdal og Aðaldal. Aðrar gervigígaþyrpingar finnast í Þjórsárdal, Landbroti, Álftaveri og við Elliðavatn (Rauðhólar). Stakir gígar eru við Hafnarfjörð (Rauðhóll, nú horfinn vegna malarnáms), við Leiðólfsfell á Síðuafrétti, í Skaftáreldahrauni vestan Síðujökuls, í Mjóanesi við Þingvallavatn, í Þjórsárhrauni austan Stokkseyrar og við Skarð í Landi. Einnig má nefna gervigíga í Hallmundarhrauni norðan Eiríksjökuls; í Presthólahrauni skammt sunnan Kópaskers og í Kjalhrauni suðaustan Hrútfells (sjá Jarðfræðikort af Íslandi). Lýsingar gervigíga á spænsku eru hér.

pseudocr

Í Laxárdal eru gígaþyrpingin Rauðhólar, fremur óreglulegir en háir hólar. Þar heitir Sog sem Laxá ryðst meðfram hólunum. Hólarnir hafa verið skemmdir nokkuð með efnistöku.

Í Aðaldal eru margar gervigígaþyrpingar. Þær eru flestar utan friðlandsmarka en mynda órofa heild með Laxá og Laxárhrauni sem þær eru hluti af. Helstu þyrpingarnar eru í landi Haga, Hólmavaðs, Ytrafjalls, Ness og Hafralækjar, en einnig eru gígar vestan við Grenjaðarstað. Í landi Knútsstaða er þyrping óteljandi strompa í hrauninu, án efa af völdum vatns undir því, og eru þeir náttúruundur í heild sinni og áreiðanlega einstakar myndanir í sinni röð hér á landi.

Verndun

Allir gervigígar í Mývatnssveit og Laxárdal eru innan friðlandsmarkanna. Skútustaðagígar eru friðlýstir sérstaklega skv. náttúruverndarlögum sem náttúruvætti. Verndun gervigíganna fer yfirleitt vel saman við verndun strandlengjunnar umhverfis Mývatn og eyjanna í vatninu, því að þeir eru flestir á eyjum og nesjum. Eins er þess að geta að flestar varpholur húsandarinnar eru í gervigígunum, en húsöndin skipar sérstakan sess sem einkennisfugl svæðisins og varpholurnar eru ein forsenda þess að hún geti lifað þar.

Gjallnám og vegagerð er helsta ógnun við gervigígana. Nokkrir gígar hafa horfið (hólar við Neslandavík, Kirkjumýrarhóll við Skútustaði) aðrir verið skertir (Arngarðshólar, Fellshóll, Sandhólar við Garðsgrundir, Rauðaborg og Stóraborg sunnan við Skútustaði, Dagmálaborg við Skútustaði, Rauðhólar við Álftagerði, Grímsstaðaborgir, hólar norðan vegar við Geirastaði). Þjóðvegagerð er að mestu lokið í Mývatnssveit í bili, en einhver brögð eru að því að landeigendur taki möl úr námum sem að nafninu til hefur verið lokað og gengið frá.

Byggingar íbúðar- og útihúsa á sveitabæjum hafa sums staðar breytt hólunum. Sem dæmi skal nefna Austurhöfða, Bæjarhóla í Garði, Bæjarhólinn í Haganesi, Vagnbrekku og hólana þar sem nú er Hótel Gígur (upphaflega Skútustaðaskóli).

Tún hafa verið ræktuð á mörgum gíganna, einkum Skútustaðagígum, Vindbelgjarhöfða (Austur- og Vesturhöfða), Skefilshólum, Óshólum og í Haganeshöfðum austanverðum. Síðastnefnda túnið er ekki lengur í rækt. Yfirleitt fellur túnræktin ekki illa að verndun hólanna, en sums staðar hafa myndast börð þar sem túnið mætir gíghólnum. Þetta er einkum áberandi í Skútustaðagígum og þyrfti að bæta úr því með því að aka mold í sárin.

Traðk ferðafólks er eitt helsta vandamálið við verndun gíganna. Gjallið í gígrimunum er einkar laust í sér og láta gígarnir fljótt á sjá þar sem einhver umferð er. Gróður á undir högg að sækja á gígrimunum vegna þurrks, einkum sunnan í móti, svo að hann er viðkvæmur fyrir traðki. Í Skútustaðagígum hefur málið verið leyst með afgirtum göngustígum (með litlum steypujárnsstikum og köðlum) og trépöllum og tröppum, þar sem umferð er mest. Hefur sú framkvæmd tekist vel. Ef til vill þarf að huga að því að gígarnir eru talsvert ljósmyndaðir úr lofti og heyrst hefur að pallarnir taki sig ekki vel út frá því sjónarhorni.

gervig_Hafralaek

Gervigígar hafa enn ekki verið flokkaðir formlega eftir náttúruverndargildi. Knútsstaðaborgir þarf að kortleggja og meta náttúruverndargildi sérstaklega. Þær gætu hæglega orðið aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Gjallgígarnir í Aðaldal eru sannarlega verndar verðir. Ástand þeirra er hins vegar ekki vel þekkt, og þyrfti að gera úttekt á því við fyrsta tækifæri.

Meira um gervigíga

Gervigíganafnið er komið frá Sigurði Þórarinssyni, en hann nefndi þessa gerð gíga pseudocrater á ensku. Þótt þessi nafngift hafi fest rætur hérlendis hefur hún ekki fallið í kramið í hópi erlendra jarðfræðinga sem finnst ekkert gervilegt við gígana og kjósa að nota hugtakið rootless vents í staðinn. Þar er vísað til þess að þeir hafa ekki venjulegar rætur, þ.e. lóðrétta aðfærsluæð eins og þegar um hefðbundin eldgos er að ræða. Á Hawaii nefnast gervigígar littoral cones eða strandgígar, sem vísar til þess að þeir myndast niðri við sjó. Hugtakið rootless vent reynist einnig óheppilegt, því að hugmyndir manna um aðfærsluæðar gíganna hafa breyst. Sigurður Þórarinsson gerði ráð fyrir að gígarnir mynduðust einungis úr því hraunbráði sem upphaflega hefði breiðst yfir vatnsósa jarðveg eða hraun. Nú á sú skýringarhugmynd meira fylgi að fagna að gervigosin fái efni sitt um láréttar aðfærsluæðar, lokaðar hraunrásir, sem liggja alla leið frá sjálfum gosstöðvunum og að frambrún vaxandi hraunbreiðunnar. Með þessu móti má skýra óvenju mikið efnismagn sumra gervigíganna, – þeir eru að fá byggingarefni lengi eftir að hraunbreiðan í kring hefur stöðvast. Rennsli í miklum flæðigosum verður að miklu leyti í lokuðum rásum í hrauninu. Ef rásirnar rofna og hraunbráðin kemst í snertingu við vatnsósa set verða gufusprengingar sem tæta hraunbráðina í sundur og mynda gjall sem þeytist upp ásamt hraunslettum og gusum af seti. Hraunrásin heldur áfram að flytja hraunbráð að gervigosinu. Fyrst hlaðast upp gjallbingir, oft sæmilega vel lagskiptir, með miklu vatnaseti í bland. Þegar líður á gosið og vatnsmagn minnkar verður gjallið grófara, og að lokum slettist einungis upp bráðið hraun með molum af hálfbráðnu seti. Gosið getur minnkað í áföngum og myndast þá minni gígar innan í þeim stærri.

Gervig_myndun_lit

Í setinu sem upp kemur í gosinu eru oftast kísilþörungaskeljar sem gefa til kynna hvers konar votlendi hraunið rann yfir. Kísilþörungar í Mývatnsgígunum sýna að þar var stórt stöðuvatn sem hraunið rann út í, en ekki mýri eða kerfi smátjarna eins og oft er látið í veðri vaka (Árni Einarsson 1982).

Gervi_skyring

Gervigígar myndast helst í stórum flæðigosum, en þau hafa orðið á mjög fáum stöðum á Jörðinni á seinni jarðsögutímum. Gervigígar eru aðeins þekktir með vissu á einum stað utan Íslands, en það er á Hawaii, og þar hafa menn oft orðið vitni að myndun þeirra. Þar myndast þeir þegar hraun rennur út í sjó. Hraunið brotnar upp og hleður undir sig stalli úr grjótmulningi. Þegar hraun rennur síðan yfir stallinn og hraunrásirnar gefa sig af einhverjum ástæðum kemst hraunið í snertingu við sjóinn og gufusprengingar verða. Hraun heldur áfram að renna að gosstaðnum í gegnum hraunrásina.

Nýlega fannst klasi gjóskugíga í Dekkan-tröppunum svonefndu á Indlandi, en það eru þykkar hraunlagasyrpur myndaðar í miklum flæðigosum fyrir milljónum ára. Talið er líklegast að þarna sé um gervigíga að ræða (Sheth o.fl. 2004). Gervigígar eru einnig taldir vera í Columbia flæðibasaltinu í Bandaríkjunum (Þorvaldur Þórðarson & Self 1998) og basaltlögum á Vestur-Grænlandi (sjá hér).

Gervigígar í geimnum

Þó nokkur áhugi hefur kviknað á gervigígum eftir að ljósmyndir frá Mars sýndu gígasvæði sem minna nokkuð á gervigíga á Íslandi. Hafa rök verið færð fyrir því að þarna sé um raunverulega gervigíga að ræða og þeir hafi myndast þar sem hraun hafi runnið yfir sífrera. Sjá mynd hér. En gervigígar virðast vera víðar í geimnum. Á Io, einu af tunglum Júpíters, er mikil eldvirkni og hafa sést nýlegar hraunmyndanir í eldstöðinni Pillan, sem talið er að geti verið gervigígar (Davies 2001).