Líf og lífsskilyrði  í Mývatni og Laxá

Lífríki Mývatns hefur getið sér orð um víða veröld og er því eðlilegt að sú spurning vakni hvernig á því stendur að svo auðugt líf þrífst á þessum stað. Því skal í upphafi gerð grein fyrir helstu eiginleikum vatnsins: straumum, vatnshita, dýpi og efnasamsetningu og gefa þannig nokkra mynd af þeim lífsskilyrðum sem dýr og plöntur búa við ofan í vatninu.

Vatnafræði

Nær allt aðrennsli í Mývatn kemur um lindir meðfram austurströnd vatnsins. Vatnið hefur síast neðanjarðar á vatnasviði sem talið er að nái frá Dyngjufjöllum í suðri og hálfa leið austur að Jökulsá á Fjöllum. Heita má að ekkert ofanjarðarrennsli sé á þessu svæði. Vatnsrennsli í Mývatn er því ákaflega jafnt.

Eina áin sem rennur í Mývatn er Grænilækur og kemur hann úr Grænavatni aðeins spölkorn sunnan Mývatns. Grænavatn fær meginhlutann af vatni sínu um lindir líkt og Mývatn. Rennsli grunnvatnsins austan Mývatns er talið liggja úr suðaustri (mynd). Stærsta lindin opnast innst í Garðsvogi við bæinn Garð. Í Syðrivogum eru einnig allvatnsmiklar lindir. Minni lindir koma fram í Norðurvogum og Strandarvogi. Þessar lindir eru allar kaldar. Í Ytriflóa eru einnig lindir, og eru þær volgar. Mestu lindirnar eru meðfram landi við bæinn Voga, en minni lindir eru í Helgavogi og fram undan Reykjahlíð. Nálægt Grímsstöðum og við austanverðan Neslandatanga eru kaldar smálindir.

Samanlagt rennsli lindanna er álíka mikið og rennsli Laxár ofan ármóta við Kráká. Vatnsrennsli af yfirborði er lítið og kemur aðallega í vatnslitlum kílum af Framengjunum í sunnanvert Mývatn.

Mývatn skiptist svo að segja í tvö vötn: Ytriflóa og Syðriflóa. Sundið á milli, Teigasund, er aðeins um 350 m breitt og í því eru grynningar og allstór eyja, Varpteigar. Hvað lífskilyrði í vatninu hrærir er Mývatn eiginlega þrískipt, því að ofan (austan) eyjanna í austanverðum Syðriflóa gætir vatnsrennslis úr lindunum mjög mikið. Svæði þetta er oft nefnt Bolir einu nafni. Á sumrin, þegar mikill svifþörungagróður er í Mývatni og vatnið litað, er vatnið á Bolunum oftast tært.

Þrátt fyrir stærðina er Mývatn grunnt. Dýpsti staður í Syðriflóa er 4,2 m. Stór svæði um miðbik flóans eru rúmir 3 metrar á dýpt, en inni á Bolum, á Álum og Neslandavík er dýpið nálægt 2,5 metrum (dýptarkort). Víðast er sléttur leðjubotn. Víða í Mývatni eru sker og grynningar og sums staðar standa klettar upp úr botneðjunni, svonefndir hnyklar, og hafa þeir flestir nöfn (t.d. Bolahnykill). Nokkuð vandratað er því um vatnið á vélknúnum bátum. Nærri löndum er botninn víða blanda af gjalli og leðju, en sums staðar hreinn gjall- eða sandbotn.

Í Ytriflóa skiptir í tvö horn um vatnsdýpi. Suður- og vesturhlutar flóans eru um og innan við metri á dýpt og botninn víðast hvar jafnsléttur. Flóinn norðaustanverður hefur dýpkað mikið við það að botneðjunni hefur verið dælt á land til kísilgúrvinnslu. Þar sem áður var um 1 m dýpi er dýpið nú um 2-6 m, 3-4 m dýpi er algengt og botninn mishæðóttur. Um 40% af flatarmáli Ytriflóa höfðu verið dýpkuð árið 2000 (kort). 

Endurnýjunartími vatns í Mývatni er mjög stuttur miðað við önnur vötn. Rúmmál vatnsins er lítið (um 76,5 milljón rúmmetrar) og aðstreymi lindavatns ört. Meðalviðstaða vatns er um 27 dagar. Það merkir að væri öllu vatni ausið úr Mývatni tæki það tæpan mánuð að fyllast á nýjan leik.

Í kyrrviðri liggur allsterkur straumur suður úr Ytriflóa í gegnum Teigasund. Er talið að vatnshæð Ytriflóa sé um 3 sentimetrum hærri en Syðriflóa. Í sterkri sunnanátt snýst straumurinn og vatn rennur úr Syðriflóa í þann ytri. Lækkar þá vatnsborðið í sunnanverðum Syðriflóa en hækkar að sama skapi í Ytriflóa.

Framleiðsla á lífrænu efni í vötnum fer í aðalatriðum fram á sama hátt og á landi. Grænu plönturnar, bæði botngróður og svifþörungar, tillífa ólífræn efni, s.s. nitur, fosfór, vatn og koldíoxíð, og nota til þess orku frá sólinni. Dýrasamfélögin nærast svo á plöntunum, beint eða óbeint. Smásæir einfrumu þörungar gegna stærstu hlutverki. Á vatnsbotninum eru einnig ókjör rotnandi jurta- og dýraleifa sem nýtast dýrunum sem fæða (mynd).

Mývatn er við norðurjaðar Ódáðahrauns, sem er eitt þurrviðrasamasta svæði landsins því að það er í regnskugga af Vatnajökli. Sólgeislun er því mikil miðað við aðra landshluta, og skilyrði til ljóstillífunar ættu að vera góð.

Eitt einkenni lindavatnsins sem rennur í Mývatn er að það er auðugt að fosfötum. Virðist það almennt eiga við um lindavatn á gosbeltinu. Jarðvatn þar síast um ung og hriplek jarðlög og tekur í sig ýmis steinefni, þ. á m. fosföt, úr þeim. Fosfat er nauðsynlegt áburðarefni fyrir plöntugróður og viðstaða vatnsins í Mývatni er nægilega löng til að efnið nýtist þar. Í öðrum vötnum er algengt að fosfatskortur hamli vexti þörunga og annarra plantna. 

Efnasamsetning jarðhitavatnsins sem rennur í Ytriflóa er frábrugðin samsetningu kalda vatnsins. Í jarðhitavatninu er mun meira af uppleystum kísil, brennisteini og söltum (t.d. kalíum, natríum og klór). Líklegt er að þetta hafi nokkur áhrif á lífskilyrði en hefur ekki verið kannað mikið. Hár kísilstyrkur í vatninu gerir það að verkum að kísilþörunga skortir sjaldan eða aldrei kísil til myndunar skelja sinna. Kísill er oft af skornum skammti í öðrum vötnum og setur hann þar vexti kísilþörunga skorður.

Vatnshiti í Mývatni á sumrin fylgir lofthitanum fast eftir. Ástæður þess eru einkum þrjár. Í fyrsta lagi er vatnsmassinn lítill. Í öðru lagi blandast vatnið auðveldlega frá botni til yfirborðs. Í þriðja lagi  er vatnið svo grunnt að sólarljós nær niður á botn og hitar hann. Vatnshitinn fer því stundum upp fyrir 15 gráður um hásumarið.

Öðru máli gegnir á veturna. Vatnið leggur oftast á tímabilinu október-nóvember, og leysir ísa ekki fyrr en í apríl til maí (í köldum árum ekki fyrr en í júní). Mývatn er ísi lagt 140-250 daga á ári og verður ísinn oft um 70 sentimetra þykkur. Undir honum er einnar til tveggja gráðu heitt vatn niður á um tveggja metra dýpi. Niðri á þriggja metra dýpi er vatnið gjarnan um eða yfir þriggja gráðu heitt og þyngra í sér en kaldara vatnið sem ofan á liggur. Kalda lindavatnið í Syðriflóa er um sex stiga heitt þar sem það sprettur upp úr vatnsbotninum við austurströndina. Vakir eru á ísnum á lindasvæðunum (mynd) og loftkæling mikil. Kólnar lindavatnið hratt niður fyrir þrjár gráður. Þar með verður það léttara í sér en vatnið næst botninum og streymir því fram rétt undir ísnum. Vatnið við botninn verður nær kyrrstætt og virðist blandast lítið við efra vatnslagið. Getur þetta haft í för með sér súrefnisþurrð sums staðar við botninn. Kemur hún t.d. fram í því að silungur drepst fljótt í netjum sem lögð eru undir ís á vissum svæðum í Syðriflóa.

Vatnshiti í volgu lindunum er 15-25 gráður, en vatnið kólnar fljótt og hitans gætir skammt út í Mývatn. Eftir umbrotin við Kröflu 1977 jókst hiti í lindunum, og eru nú nokkrar lindir volgar sem áður voru kaldar. 

Í örstuttu máli má segja að höfuðástæður fyrir lífauðgi Mývatns séu tvær: tiltölulega ríkulegur skammtur orku og næringarefna, – sólarljóss og fosfata. Þetta segir þó ekki alla söguna því að sérstaða Mývatns er einkum fólgin í því hvernig lífauðgin birtist okkur í mynd fuglalífs og silungsveiði. Þar skipstir mestu máli hversu grunnt Mývatn er.