Mánudaginn 31. ágúst undirrituðu rektor Háskóla Íslands, Kristín Ingólfsdóttir og Árni Einarsson, forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn (RAMÝ) viljayfirlýsingu um aukið samstarf í viðurvist umhverfisráðherra Svandísar Svavarsdóttur og sveitarstjórnar Skútustaðahrepps. Í viljayfirlýsingunni segir:

Rannsóknastöðin hefur átt mikilvægt samstarf við Háskóla Íslands (HÍ) frá upphafi. Háskólinn gegndi lykilhlutverki við skilgreiningu verkefna og rekstur þeirra á fyrstu starfsárum stöðvarinnar og markaði stefnu í vöktun og rannsóknum og miðlun á niðurstöðum. HÍ hefur frá upphafi verið bakhjarl RAMÝ á ýmsum sviðum og í gildi er samstarfssamningur við Líffræðistofnun Háskólans um gagnkvæma aðstöðu.

REKTORogALLIR

Fulltrúar RAMÝ og sveitarstjórnar Skútustaðahrepps ásamt umhverfisráðherra og háskólarektor.

RAMÝ gerir sér ljóst að eðli Mývatns verður ekki skilið til fullnustu nema með samstarfi vísindamanna úr mörgum greinum raunvísinda þar sem háskólastofnanir og starfsmenn þeirra skipta meginmáli. RAMÝ telur hlutverk sitt m.a. í því fólgið að vera hvetjandi afl og tengiliður sérfræðinga sem vinna á sviðum sem snerta náttúru Mývatns og nágrennis og menningu svæðisins.

HÍ telur að Mývatn bjóði upp á örvandi rannsóknaumhverfi fyrir nemendur og sérfræðinga þar sem fengist er við verkefni sem brenna á mönnum í vatnalíffræði, vistfræði, fuglafræði, jarðfræði, umhverfisfræði, ferðamálafræði, sagnfræði, mannfræði og fornleifafræði og raunar sérhverri þeirri fræðigrein sem varðar samspil manns og náttúru í ellefu hundruð ár. HÍ telur mikils virði að eiga kost á aðstöðu fyrir nemendur til námskeiða og rannsókna og hafa greiðan aðgang að rannsóknagögnum og þekkingu á náttúru svæðisins. Samstarf við RAMÝ mun stuðla að því að HÍ verði áfram virkur þátttakandi í rannsóknum á svæðinu.